145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

fjáraukalög 2016.

875. mál
[20:40]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2016. Eins og framsögumaður minnihlutaálitsins fór ágætlega yfir þá eru hér nokkur atriði sem við höfum gert athugasemdir við og ekki bara núna heldur þau ár sem þessi ríkisstjórn hefur lagt fram fjáraukalög. Þetta er vissulega ekki bara til komið hjá þessari ríkisstjórn, þetta hefur verið lapsus í fjárlagagerð í áratugi. Einhvern veginn áttum við von á því að þegar nýju fjárreiðulögin tækju gildi mundi þetta breytast, en nú er fyrirséð að annað fjáraukalagafrumvarp verður lagt fram af því að í því sem hér er lagt fram er ekki gert ráð fyrir, eins og var rakið, endurmati á tekjum eða neinu slíku. Þetta er bara miðað við þær ákvarðanir sem ríkisstjórnin hefur þegar tekið, það sem hér er lagt til.

Við þurfum að fara vel ofan í það í stjórnkerfinu, og það er áhyggjuefni, að okkur skuli enn sem komið er ekki hafa tekist að ná utan um viðamikla málaflokka eins og S-merktu lyfin eða sjúkratryggingar og velferðarráðuneytið virðast einhvern veginn aldrei geta áætlað þá þannig að þeir standist fjárlög. Það er eitthvað sem þarf að fara yfir og gera betur í. Annars erum við í raun alltaf að velta sama boltanum á undan okkur og þá nær tilgangur nýju laganna ekki fram að ganga. Ég tel að þetta sé eitthvað sem við þurfum að gera.

Nú er sótt um 427 millj. kr. vegna S-merktu lyfjanna. Við vissum það auðvitað og ræddum það mjög ítrekað við fjárlagagerðina að uppsöfnuð þörf væri í kerfinu og að mjög lengi hefðu ekki verið tekin inn ný lyf sem neinu næmi. Það var alveg ljóst að við þyrftum að gera miklu betur en gert hefði verið. Það er því fyrir það fyrsta ekki hægt að segja að þetta sé ófyrirséð og svo virðist áætlunargerðin alltaf vera mjög broguð. Í áliti okkar í minni hlutanum er það rakið að við sjáum það strax í upphafi fjárlagagerðarinnar að ekki er gert ráð fyrir eðlilegum raunvexti í þessum málaflokkum.

Það eru nokkuð margir fjárlagaliðir sem eru töluvert umfram fjárheimildir og samt sem áður er ekki gerð tillaga um það í þessum fjárauka, enda lagði ráðuneytið það upp, eins og ég sagði hér áðan, að að öllum líkindum kæmi annað fjáraukalagafrumvarp eftir að ný ríkisstjórn tæki við. Við erum með stórar stofnanir eins og títtnefndan Landspítala, við erum með sjúkraflutninga og ákveðnar heilbrigðisstofnanir og löggæslu- og sýslumannsembætti sem hafa átt við erfiðleika að etja. Svo eru það auðvitað skólarnir okkar, hvort sem það eru háskólarnir eða framhaldsskólarnir. Sumir ná kannski að halda sig innan marka en það er klárt mál að aðrir geta það ekki. Við höfum tekið framhaldsskólana hér til umfjöllunar, m.a. Verkmenntaskólann á Akureyri, og mun fleiri eiga við mikinn fjárhagsvanda að etja og ekki virðist sjá fyrir endann á því.

Mjög margir kvarta undan því að launauppbæturnar nægja ekki fyrir þeim kjarasamningum sem ríkið er að gera við stofnanir sínar. Það er auðvitað bagalegt og kemur til með að skila þessum stofnunum í halla. Það er alltaf gert ráð fyrir einhvers konar aðhaldi hjá hverri stofnun, innbyggðum niðurskurði, uppsögnum fólks og öðru slíku og það bætist ofan á þetta, að ekki sé bætt fyrir launahækkanirnar. Þetta á ekki bara við um skóla heldur allar opinberar stofnanir sem virðast meira og minna koma þannig út, ekki allar en mjög margar, heilbrigðisstofnanir sérstaklega þar sem vaktavinna er og mismikið álag, löggæslan og sýslumenn, og hafa látið í sér heyra hvað þetta varðar. Þetta virðist ekki hafa gengið nægjanlega vel eftir.

Varðandi afkomuna þá er staða ríkissjóðs vissulega ágæt en eins og ég hef oft rætt í ræðustól Alþingis er hún kannski mun betri vegna þeirra einskiptisframlaga sem ríkissjóður hefur fengið, hvort sem það eru stöðugleikaframlög eða bankaskattur eða annað slíkt sem hefur komið inn, auk þess sem olíuverð, krónan og margt annað hefur spilað með okkur fram til þessa. Það er fyrst og fremst það sem skýrir góða stöðu ríkissjóðs þó að vissulega séu veltuskattar líka að aukast. Með auknum ferðamannastraumi gerist það. Það breytir því ekki að undirliggjandi tekjustofnar ríkisins hafa markvisst verið veiktir á kjörtímabilinu og það er alveg ljóst að þegar stöðugleikaframlögin þrýtur þá erum við kannski ekki með mjög burðugan undirrekstur hjá ríkinu. Þrátt fyrir að hagvöxtur hafi verið hér allan þann tíma sem ríkisstjórnin hefur verið við völd, raunar samfellt upp á við frá 2010, hefur þróun heildarafkomunnar ekki orðið eins og hún hefði kannski átt að vera.

Varðandi nokkra liði sem hér hefur verið farið yfir þá eru nokkrar stofnanir sem að okkar mati — þótt ekki sé um stórkostlegar fjárhæðir að ræða þá skiptir allt máli, stofnanir velta auðvitað mismiklum fjármunum — eiga að geta farið í smávægilega hluti án þess að þurfa að fá aukafjárveitingar. Það ætti að vera hægt að hagræða innan rammans. Nú hlýtur að reyna á það á næsta fjárlagaári, þegar við förum að ákveða rammana fyrir alla málaflokka, að hreyfa þurfi til fjármuni á milli málaflokka en ekki kannski á milli fjárlagaliða hjá ráðuneytunum gagnvart tilteknum stofnunum.

Hér er talað um embætti forseta Íslands sem óskar eftir 10 millj. kr., m.a. vegna heimasíðugerðar. Maður hefði nú haldið að það gæti beðið, það skipti ekki sköpum hvort slík síða yrði komin í gagnið um áramótin eða hvort hún færi í loftið eftir áramótin. Hugsanlega hefði líka verið hægt að hagræða innan málaflokksins. Hér eru líka málefni sem eru góðra gjalda verð og við tökum einmitt fram að við höfum ekkert við verkefnin sem slík að athuga, alls ekki. Mörg eru þau brýn og skipta miklu máli, t.d. þessar tæpu 10 millj. kr. sem fara í kennslu í forritun í grunnskólum og 50 millj. kr. framlag til verkefnis á sviði máltækni fyrir íslenska tungu. Þetta eru svo sannarlega mikilvæg mál en maður veltir því auðvitað fyrir sér hvort málin séu svo brýn að þau megi ekki bíða nýrra fjárlaga.

Hér er hins vegar annað mál sem er brýnt og getur ekki beðið nýrra fjárlaga, ég get alveg tekið undir það, útlendingamálin þar sem verið er að styrkja starfið þannig að hægt sé að veita flýtimeðferð svo að ferlið gangi hraðar fyrir sig gagnvart öllum sem að málinu koma, þeim sem koma hingað til lands sem og auðvitað stofnanakerfinu. Hér er líka verið að setja aðeins í löggæsluna, m.a. vegna aukins ferðamannastraums sem lá líka alveg fyrir. Ég hef mikið talað um að löggæslan sé vanfjármögnuð. Það er mikið um það að lögreglumenn séu einir í stórum umdæmum. Nú á dögunum hafa verið að berast ályktanir um álag og menn hafa lýst yfir áhyggjum af flótta úr stéttinni og öðru slíku. Þetta lá fyrir í upphafi árs. Þetta lá líka fyrir í upphafi síðasta árs. Þetta er ekkert óvænt, þetta er eitthvað sem hefði átt að vera búið að bregðast við fyrir lifandis löngu með miklu ákveðnari hætti og ekki síst í ljósi þess að ferðamannastraumurinn er svo þungur og innviðirnir í samgöngum hafa því miður verið látnir drabbast allt of mikið niður, það veldur því að slys verða fleiri og hafa orðið fleiri. Ekki er nóg með að þungaflutningarnir séu allir á vegum heldur hefur rútum líka fjölgað og svo túristar á ferð á bílum sem kunna misvel að keyra vegina okkar eins og þeir eru þar sem ekki er alltaf um beina og breiða leið að ræða.

Ég gerði að umtalsefni við 1. umr. þessa máls Umhverfisstofnun og það sem snýr að fyrstu vatnaáætlun landsins og stjórn vatnamála. Alltaf var gert ráð fyrir gjaldtöku af atvinnurekstri sem nýtir vatnsauðlindina og hún átti að mestu leyti að standa undir framkvæmd vatnatilskipunarinnar og átti að taka gildi árið 2013. Það hefur aldrei náð fram að ganga og ríkissjóður hefur fjármagnað þetta fram til þessa. Ekki hefur verið gerð tilraun til að finna út úr því hvort hægt er að mætast á miðri leið varðandi þessa gjaldtöku, þ.e. að hluti komi úr ríkissjóði og hluti frá þeim sem nýta þessa auðlind okkar. Ég tel að það eigi að vera þannig að þessu sé að einhverju leyti skipt á milli. Það sýnir sig að stjórnvöld hafa ekki ráðið við málið eða þau eru bara ekki tilbúin til þess að láta atvinnulífið greiða, það er eiginlega sú niðurstaða sem ég kemst að.

Við gagnrýndum töluvert þessar breytingartillögur. Eins og ég sagði í andsvari áðan við framsögumann meirihlutaálitsins þá er ekki eðlilegt að koma inn með breytingartillögur af þessum toga, ég tala nú ekki um þegar lífeyrissjóðsmálið var hér inni líka þó að það sé tekið til hliðar núna, að leggja þær fram og geta ekki einu sinni svarað spurningum um það sem þar er undir, t.d. um það sem ég nefndi áðan, Þekkingarsetur ferðaþjónustunnar, hvort þetta er stofnun sem kemur til með að þurfa að fá árlegt framlag úr ríkissjóði og þá hversu mikið. Ég veit að ætlunin er að Stjórnstöð ferðamála geri samning við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins fyrir hönd stjórnvalda. Ég lít svo á að þetta sé þá fastur póstur. Nú ætla ég ekkert að segja að þetta sé ekki besta leiðin til að fara, ég ætla ekki að hafa skoðun á því fyrr en ég er búin að kynna mér málið til hlítar. Ég er alveg sammála því og sannfærð um það að við þurfum að auka færni og menntun þeirrar stéttar sem er í ferðaþjónustu enn meira en gert hefur verið. Við erum auðvitað að taka inn mikið af ófaglærðu fólki til að reyna að sinna þessari þjónustu. Það hefur líka leitt af sér að lág laun eru í ferðaþjónustunni og ef eitthvað er hægt að gera til að bæta hvort tveggja, þ.e. að fólk verði betra í því sem það er að gera um leið og launin hækki, það finnst mér að þau þurfi að gera, þá er ég alveg tilbúin til að skoða hvort þessi leið er betur fær en önnur. Mér finnst það samt skipta máli að við höfum það sem heitir að mennta fólk í þessum geira og maður spyr sig náttúrlega hvort skynsamlegt sé að dreifa kröftum. Eigum við þá að leggja niður þetta nám annars staðar eða eigum við að hafa það víðar og erum við þá að samræma þarfirnar í þá átt sem ferðaþjónustan kallar eftir, ef við erum með þetta inni í framhaldsskólakerfinu annars vegar og hins vegar á vegum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins? Þetta eru spurningar sem maður þarf að fá svör við og ekki síður hvað er áætlað að þetta kosti árlega. Mér finnst það skipta máli.

Að lokum ætla ég að nefna það sem álit okkar endar á varðandi bætur almannatrygginga. Við í minni hlutanum höfum ítrekað lagt á það áherslu að þær eigi a.m.k. að fylgja hækkun lágmarkslauna. Við ítrekum það hér að við teljum að 69. gr. laga um almannatryggingar hafi verið sett til þess að verja hópa gegn kjaraskerðingu, þ.e. þá sem fá greiddan lífeyri, það sé beinlínis til þess fallið að setja þetta fólk í fátæktargildru að halda því á lægstu laununum. Nú sjáum við að lágmarkslaun hækka hlutfallslega meira en önnur laun í landinu, sem betur fer, og þá er ekki eðlileg að einn hópur eða í raun tveir, öryrkjar og aldraðir fá lífeyri vegna stöðu sinnar, sitji eftir. Við ítrekum að við teljum að hækkunin hefði átt að vera afturvirk frá 1. maí 2016 eins og kjarasamningarnir gerðu ráð fyrir og það eru fordæmi fyrir því með kjarasamningunum sem gerðir voru árið 2011. Þá kom hækkun um mitt ár, það var ekki beðið með hana til áramóta eins og verið er að gera núna. Við hefðum viljað sjá það tekið fyrir í fjáraukalögum og við leggjum fram breytingartillögu í þá átt. Hún verður væntanlega rædd eins og aðrar breytingar hér sem ríkisstjórnin leggur til, sem og væntanlega það mál sem ég hef ítrekað viðrað varðandi Þekkingarsetrið.