145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

beiðni um skýrslu um niðurfærslu verðtryggðra fasteignaveðlána.

[10:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um fundarstjórn forseta í ljósi þess að við erum hér á lengsta löggjafarþingi sögunnar eftir því sem mér er tjáð. Þann 15. september 2015 var lögð fram beiðni um skýrslu til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra þar sem óskað var frekari upplýsinga um niðurfærslu verðtryggðra fasteignaveðlána en áður hefðu komið fram, þar sem m.a. var óskað eftir upplýsingum um hvernig heildarupphæðin sem varið hefði verið til lækkunar verðtryggðra húsnæðislána dreifðist eftir tekjum á milli allra framteljenda árið 2014, hvernig hlutfallið væri á tekjubilin og hver væri fjöldi framteljenda á bak við hvert tekjubil, en líka eftir eignastöðu.

Herra forseti. Við erum komin langt fram í september ári síðar. Mér hefur verið sagt hér að rekið hafi verið eftir þessari skýrslu í fjármála- og efnahagsráðuneytinu en enn er skýrslan ekki komin. Ég fer nú að velta því fyrir mér hvernig hæstv. ráðherrar ætla að sinna skyldum sínum gagnvart þinginu þegar þeir komast upp með það í heilt ár að svara ekki skýrslubeiðni frá níu þingmönnum úr öllum stjórnarandstöðuflokkunum. Þessar upplýsingar hljóta að liggja fyrir og hæstv. ráðherra gerði þá betur í því að skila bara auðu og segja að hann hafi ekki upplýsingarnar ef hann hefur þær ekki. Þetta á auðvitað að vera löngu komið, herra forseti. Þetta er ekki boðlegt.