145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

breytingartillögur við frumvarp um almannatryggingar.

[10:40]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það er rétt að kerfi almannatrygginga er flókið og það átta sig ekki allir á því hvernig það virkar. Þess vegna fögnum við í Samfylkingunni einfölduninni, en breytingartillögurnar sem verið er að leggja fram eru þannig að þær mismuna fólki innan ellilífeyriskerfisins og eins á að skerða krónu á móti krónu hækkunina til öryrkja. Það er óásættanlegt. Það finnst ekki bara okkur í Samfylkingunni heldur líka þeim sem þurfa að reiða sig á þessar greiðslur.

Hér í dag verða atkvæði greidd um tillögu frá minni hluta fjárlaganefndar um að ellilífeyrisþegar og öryrkjar fái greiðslu frá 1. maí 2016, eins og aðrir á launamarkaði fengu í samræmi við síðustu kjarasamninga. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann ekki að andi almannatryggingalaganna sé þannig að þau eigi að verja lífeyrisþega fyrir kjaraskerðingum en ekki að með þeim eigi að láta þá vera fátækasta allra? Telur hann ekki sanngjarnt að lífeyrisþegar fái greiðslu afturvirkt frá 1. maí 2016?