145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

beiðni til umhverfisráðuneytis um álit.

[10:43]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það er öllum ljóst að Alþingi hefur nú haft með höndum um nokkra hríð mál sem er í daglegu tali kallað frumvarp um Bakkalínur. Þetta er nokkuð óvenjulegt mál. Hér er með sértækum hætti verið að fara inn í almenna löggjöf. Það er líka óvenjulegt í því ljósi að um er að ræða frumvarp sem er skrifað í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu með einhverri aðkomu forsætisráðuneytisins þó að það fjalli að nánast öllu leyti um mál og löggjöf á verksviði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Það eru þá sérstaklega breytingar á náttúruverndarlögum sem eru lagðar til í frumvarpinu, sérstök áhrif á Árósasamninginn — og efasemdir hafa komið upp um að frumvarpið standist hann — EES-reglur í umhverfisrétti, skipulagslög, lög um mat á umhverfisáhrifum o.s.frv.

Af þessum sökum var það auðvitað ákveðið hér í þinginu, þó að eðlilegast hefði verið að málið hefði verið í umhverfis- og samgöngunefnd, að sú nefnd fengi aðkomu að vinnslu málsins hjá atvinnuveganefnd. Við meðferð málsins í atvinnuveganefnd varð öllum ljóst að við þyrftum að fá sérfræðiþekkingu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að borðinu. Við í umhverfis- og samgöngunefnd spurðum sérstaklega eftir því við umhverfis- og auðlindaráðuneytið að ráðuneytið gæfi álit sitt á áhrifum breytinganna á náttúruverndarlög og að ráðuneytið fjallaði um það hvort frumvarpið færi í bága við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum og Árósasamningnum. Við fengum svar heilli viku síðar um að ekki stæði til að gefa efnislegt svar við þessari spurningu þingnefndar.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju barst ekki þingnefndinni, allri þingnefndinni, umhverfis- og samgöngunefnd, efnislegt svar og hver tók ákvörðun um það?