145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

beiðni til umhverfisráðuneytis um álit.

[10:46]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Mér er afar ljúft að koma hingað og svara þessari fyrirspurn hv. þingmanns vegna þess að mér hefur fundist menn fara dálítið stórum orðum um þetta málefni og reyndar vekur það talsvert mikla furðu mína.

Það kom bréf, ráðuneytið sendi bréf til atvinnuveganefndar eins og beðið var um. Það er mjög erfitt fyrir mig sem ráðherra að gera eitthvað í því þó að hv. þingmanni líki ekki við það sem kemur fram í því bréfi, en vissulega var bréfið sent. Nú finnst mér að við getum farið að spara stóru orðin því að við erum komin inn í annað ferli eftir úrskurðinn sem var felldur í gær. Nú er sem sagt verið að vinna frekar að því að rýna þann úrskurð, tala aftur við sveitarfélögin. Sá úrskurður segir náttúrlega að frekar hafi verið um ákveðna formgalla að ræða en að það sé efnislegt því að ógildingin byggir raunverulega ekki á annmörkum á ferli mats á umhverfisáhrifum heldur frekar og eingöngu á ágöllum varðandi leyfisveitinguna. Nú skulum við bara bíða og sjá. Það er verið að vinna hörðum höndum að tala við alla málsaðila og leita leiða um hvað við gerum í kjölfarinu eftir þennan úrskurð. En mér finnst, þó að það geti verið ágætt að reyna að koma höggi á umhverfis- og auðlindaráðherra, að þá megum við ekki skaða umhverfisráðuneytið með því.