145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

yfirvofandi kennaraskortur.

[10:50]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég er hér komin til að spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um yfirvofandi kennaraskort sem við sjáum fram á á næstu árum og áratugum. Samkvæmt meistararitgerð Helga Eiríks Eyjólfssonar, um nýliðun í kennarastéttinni, héldu ekki nema tveir þriðju af nýútskrifuðum kennaranemum á bilinu 2008–2012 til starfa í grunnskólum landsins, eftir útskrift. Af þessu má ráða að einn þriðji hluti nýútskrifaðra kennara fór á þessu tímabili ekki til starfa í grunnskólum eða leikskólum landsins. Þar að auki kemur fram í meistararitgerð Helga að það er mjög líklegt að fólk hætti störfum í grunnskólum landsins innan fyrstu fimm áranna eftir að það hefur störf. Karlmenn eru líklegri til þess að hætta í starfi sem kennarar. Ég tel þetta mjög umhugsunarvert. Við sjáum fram á að kennurum fjölgar ekki í takt við nýliðun þjóðarinnar. Nýnemum í kennarastétt hefur fækkað um 60% frá 2008.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig beri að bregðast við þessu. Hvaða vinna á sér stað sem stendur í ráðuneytinu til þess að gera kennarastarfið meira aðlaðandi? Nú hafa laun hækkað að einhverju ráði en á sama tíma hefur námið líka lengst. Við erum að tala um að það að vera kennari sé svo gott sem sérfræðistarf. Það virðist ekki vera svo að álag og menntun endurspeglist í launum. Hvernig gerum við kennarastarfið meira aðlaðandi?