145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

vistvæn framleiðsla í landbúnaði.

[11:08]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það eru augljóslega tækifæri í lífrænni ræktun og ættu líka að vera í vistvænni ræktun. Þeir sem vilja kaupa slíkar vörur hefðu þá skýrt val um að það sé í lagi, að farið sé eftir öllum reglum.

Ég er sammála hv. þingmanni um að ef við erum með reglugerð sem ekki gagnast neitt, sem ekki er farið eftir og ekkert eftirlit er með, þá er það spurning til hvers hún sé. Ég mun taka þessi skilaboð með mér í ráðuneytið og kanna þetta þar. Ég ætla að lofa hv. þingmanni að hún muni fá tölvupóst frá mér með upplýsingunum sem hún biður um.

Það er mikilvægt að neytendur viti hvað þeir eru að kaupa og hvað þeir eru að fá. Mig langaði að nota tækifærið hér og benda á að við erum að klára reglugerð um merkingar á matvörum þannig að uppruni komi skýrlega fram. Við erum einnig að velta því fyrir okkur hvernig við getum upplýst um lyfjaleifar í matvöru þannig að neytendur sjái skýrt hvaða lyf hafa verið notuð í þeim vörum sem þeir eru að kaupa.

Við erum að auki að klára reglugerðarbreytingu sem bannar erfðabreytt fóður fyrir sauðfé. Það er krafa bænda að það sé gert þannig og ég vona að við séum á réttri leið þó að eflaust megi gera betur.