145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

áhrif málshraða við lagasetningu.

[11:25]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég þakka fyrir umræðuna því að hún er afar brýn. Ég vil um leið taka undir áhyggjur fólks af því að ramminn sé nokkuð þröngur til þess að ræða þetta til hlítar. Mig langar að nefna nokkur atriði.

Við samþykktum hér sjálf eftir efnahagshrunið, á grundvelli rannsóknarskýrslu Alþingis, að við vildum taka ákvarðanir sem byggðu á faglegri þekkingu, á bestu mögulegri þekkingu. Við ákváðum líka að auka sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Bæði þessi atriði hafa í raun farist fyrir. Þau hafa ekki verið í lagi. Þá vil ég sérstaklega taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur varðandi aðferðirnar sem við höfum tileinkað okkur.

Undirbúningur ráðherra verður með einhverju móti að eiga sér land í pólitískum áherslum meiri hlutans og samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna. Það er allt of oft þannig að ráðherra kemur með þingmál, þá tala ég líka af eigin reynslu, stjórnarfrumvörp, inn í þingflokka stjórnarflokkanna og ætlast til þess að málin fari þar í gegn án þess að stjórnarflokkarnir fái ráðrúm til að skoða málin. Þetta er allt of algengt. Við þurfum að andæfa þessu, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu. Stjórnarflokkarnir hafa þarna gríðarlega mikið aðhaldshlutverk með höndum, það er að skikka sína ráðherra í það að gefa tíma í að ræða pólitískt innihald sinna mála og gefa ráðrúm til að fara yfir það hvort það standist áherslur viðkomandi ríkisstjórnar.

Það er síðan áhyggjuefni, sem hæstv. forsætisráðherra kemur hér að, að við höfum enga leið til að kanna stjórnskipuleg álitamál. Þegar það kemur til Alþingis að mögulega séu árekstrar í stjórnarskrá þá höfum við engar leiðir. Besta dæmið er núna Bakkalínumálið. Við þurfum að styrkja Alþingi umtalsvert. Við erum líka með hér fyrir fram okkur þessa dagana (Forseti hringir.) dæmi um að ráðherra í ríkisstjórninni vill ekki gefa þinginu faglegt álit. Þá þarf aldeilis á sterku Alþingi að halda.