145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[11:56]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram gagnrýni úr mjög ólíkum áttum á þetta frumvarp, allt frá Alþýðusambandinu til Viðskiptaráðs. Þessir aðilar voru allir sammála um að frumvarpið þjónaði ekki yfirlýstum tilgangi, að styðja ungt fólk til húsnæðiskaupa. Ég tel frumvarpið vanhugsað, fyrir utan þann stóra ágalla sem á því er, að það mismunar fólki eftir tekjum á þann hátt að þeir sem standa best, þeir sem mestar tekjur hafa, hafa rétt á flestum krónum í skattafslátt, og þeir sem lægstar tekjurnar hafa fá færri krónur. Það er hrein mismunun sem hér er lögð til í stuðningi hins opinbera við húsnæðiskaup ungs fólks. Það er ekki þannig kerfi sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði viljum sjá byggt upp. Við hefðum talið mun eðlilegra að fara aðrar leiðir í húsnæðisstuðningi og byggja á þeirri sátt sem hefur ríkt um að sá stuðningur eigi að renna til hinna tekjulægri hópa umfram hina tekjuhærri. Þess vegna leggjumst við gegn þessu máli.