145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[11:57]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er vissulega vandi fyrir ungt fólk að koma sér upp þaki yfir höfuðið í fyrsta sinn. Það hefur svo sem alltaf verið það, virðulegi forseti. Vandinn er líklega meiri núna en hann hefur verið hingað til. Það er ekki síst í ljósi þess að tekjur ungs fólks eru nú hlutfallslega lægri en þær voru áður. Það er nú einn hlutur sem þarf að líta á. Þetta er tilraun til þess að hjálpa ungu fólki til að koma sér þaki yfir höfuðið í fyrsta sinn. Þetta er misheppnuð tilraun. Þess vegna getum við ekki greitt atkvæði með henni. Hún er misheppnuð vegna þess að hún virkar ekki strax og fyrst og síðast vegna þess að hún er fyrir ríka krakka en ekki hina sem verra hafa það.