145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[11:59]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta mál er eins öfugsnúið og hægt er að hafa það frá þessari ríkisstjórn og kórónar í sjálfu sér verk hennar á þessu kjörtímabili, þar sem hún hefur grafið undan vaxtabótakerfinu sem er besta leiðin til að koma húsnæðisstuðningi til þeirra sem raunverulega þurfa á honum að halda vegna tekna og lítilla eigna. Hér er búið til nýtt ríkiskerfi til að millifæra peninga til þeirra sem mest hafa af þeim fyrir. Fólk með 1.400 þús. kr. í mánaðarlaun, sem ekki á í neinum vandræðum með að kaupa sér íbúð, fær ríkisstyrk til að bjóða enn hærra í íbúðirnar sem það er nú þegar að kaupa sér. Það er líka mjög varhugavert að feta þessa leið sem ríkisstjórnin er að feta, að eyðileggja viðbótarlífeyrissparnaðarkerfið með þessum hætti. Í síðasta hruni var það þjóðinni mjög til góðs, og heilu kynslóðunum mjög til góðs, að hafa aðgang að viðbótarlífeyrissparnaði sem var undanþeginn aðför. Fólk átti þar með sparnað sem það hafði aðgang að og gat notað til að leysa úr bráðum vanda. Hér er ríkisstjórnin að ákveða að í framtíðarefnahagsóróa muni kynslóðin sem nú er að eignast sína fyrstu íbúð ekki eiga neinn varasjóð, ekki neitt öryggi. (Forseti hringir.) Það er mjög alvarleg ákvörðunartaka. Hún er óskynsamleg í ljósi reynslunnar.