145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

fjáraukalög 2016.

875. mál
[12:09]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Minni hlutinn hefur gert athugasemdir við frumvarp til fjáraukalaga og leggur fram breytingartillögu þess efnis. Við höfum gagnrýnt að hér eru inni ný verkefni sem ekki eiga heima í fjáraukalögum og í raun liggur ekki fyrir í hverju þau eru fólgin. Hér er m.a. dæmi um nýja stofnun væntanlega eða eitthvað slíkt sem við vitum ekki heldur hvort þarf að vera á fjárlögum til komandi ára eða hvað sem á að vera vistuð inni í Stjórnstöð ferðamála.

Við leggjum fram að nýju tillögu um bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og lífeyristryggingar, þ.e. varðandi 69. gr. almannatryggingalaga, sem á að vernda þá hópa sem hafa fengið kjaraskerðingu og þeir fái greiddan lífeyri eins og lágmarkslaunin í landinu og hækkunin verði afturvirk frá 1. maí eins og kjarasamningar gerðu ráð fyrir á almennum markaði. Við minnum á fordæmi fyrir því sem var í samningum árið 2011.