145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

fjáraukalög 2016.

875. mál
[12:16]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta held ég að sé einstæð atkvæðatafla í sögu Alþingis. Ég held að við eigum að átta okkur á hversu alvarlegum tímamótum við stöndum á þegar við tökum þessa ákvörðun núna. Það er grundvallaratriði að við getum tryggt eitt og sama lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Það er gríðarlega mikið hagsmunamál. Við komumst mjög nálægt því núna. Heildarsamtök opinberra starfsmanna eru búin að samþykkja slíkar breytingar. Það er grundvallaratriði að nýrri ríkisstjórn takist á þeim vikum sem fram undan eru eftir að hún verður mynduð, fram að áramótum, að sigla því samkomulagi í höfn og tryggja jöfnun lífeyrisréttinda á almennum markaði og hinum opinbera. Við eigum ótrúlega mikið undir því sem þjóð. Við getum ekki haldið áfram að láta bil vaxa þarna á milli. Það er grundvallaratriði að nýju þingi takist vel í þessu efni. Ég vona að mynd af þessari atkvæðatöflu fylgi nýju þingi eftir kosningar.