145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

854. mál
[12:24]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp til að fagna því að þetta mál sé að verða að lögum. Ég þakka hv. þingi og hv. atvinnuveganefnd kærlega fyrir góða og öfluga vinnu að þessu máli. Við sjáum það, sérstaklega á þessum dögum núna, hversu vel okkur hefur orðið ágengt varðandi kvikmyndaiðnaðinn þegar stór verkefni eru í gangi hér, ég vil ekki segja úti um allt land en víða um landið, með tilheyrandi efnahagslega jákvæðum áhrifum og jákvæðum áhrifum á kvikmyndagerðina. Það frumvarp sem við erum að leiða í lög í dag er nýmæli og ég ber miklar væntingar til þess að við munum sjá viðlíka árangur á tónlistarsviðinu. Ég fagna því og þakka kærlega fyrir góða vinnu sem þingið hefur veitt í þessu máli.