145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

höfundalög.

870. mál
[12:29]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er um mikilvæga réttarbót til handa eigendum höfundaréttarvarins efnis að ræða. Ég tel að sú lausn sem fannst á þessu máli sé ágæt, þ.e. að það sé fest í lög eins og hér er lagt til að verði gert, gjaldstofninn, þ.e. þeir tollflokkar tækja sem eru til þess fallin að hægt sé að gera á þau afrit til einkanota, jafnframt sé líka lögfest sú prósenta eða álagsprósenta sem lögð skal á en síðan er tekin ákvörðun um að greiða þá gjaldið úr ríkissjóði. Með þessu er settur sterkur grunnur undir gjaldtökuna. Það er skýr grunnur sem er málefnalegur og hægt að takast á um. Aðalatriðið er að átta sig á því að þessi aðferð og þessi nálgun og þessar greiðslur eru grundvallaðar annars vegar á þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslendinga og hins vegar stjórnarskrárvörðum réttindum. Hér er því ekki um að ræða framlag til menningarmála með hefðbundnum hætti heldur er um að ræða eignarréttindi, (Forseti hringir.) sem er verið að greiða fyrir og er þess vegna mikil réttarbót fyrir þá sem þær greiðslur munu hljóta.