145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

höfundalög.

870. mál
[12:30]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er mikilvægt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, að hér er ekki um framlög til menningarmála að ræða heldur greiðslur til eigenda höfundaréttarvarins efnis. Við í Vinstri grænum munum styðja þessa lausn á málinu þó að hér sé auðvitað sú stefnubreyting tekin að skattgreiðendur munu standa undir þessum greiðslum til eigenda höfundaréttarvarins efnis en ekki þeir sem neyta þess efnis. Við vitum öll að það er flókin staða uppi í þeim efnum í ljósi þeirrar tækniþróunar sem hefur orðið á undanförnum árum. Þetta er stefnubreyting en við teljum að það sé nægjanlega vel um hana búið í þessu frumvarpi þannig að við styðjum þessa lausn, enda er mjög mikilvægt að lausn fáist á þessu máli, sem ég held að höfundar séu orðnir mjög langeygir eftir.