145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

útlendingar.

893. mál
[14:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Um er að ræða eitt ákvæði sem bæta á inn í núgildandi útlendingalög sem á þá að gilda til 1. janúar 2017 þegar ný lög um útlendingamál taka gildi á Íslandi. Kveðið er á um að kæra í tilteknum málum þar sem sótt er um alþjóðlega vernd fresti ekki réttaráhrifum, þ.e. að þegar Útlendingastofnun hefur ákveðið að viðkomandi skuli yfirgefa landið fresti það að kært sé til kærunefndar útlendingamála ekki réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar. Um er að ræða þau tilfelli þegar umsækjandi kemur frá ríki sem er á lista yfir örugg upprunaríki, sbr. 3. mgr. 50. gr. d í núgildandi lögum, og Útlendingastofnun metur umsögnina að öðru leyti bersýnilega tilhæfulausa.

Hér er ákvæði sem við fjölluðum um fyrr á þessu ári. Þetta var hluti af hinum svokallaða stubb í útlendingamálum sem við vorum með til umfjöllunar í þinginu í marsmánuði síðastliðnum, sem náðist ekki samstaða um að klára þá og nefndin ákvað að skoða betur í framhaldinu. Nú erum við komin á þann stað að hér leggur meiri hluti nefndarinnar þetta frumvarp fram að nýju, eða þetta atriði, og vonast til að fá það afgreitt í þinginu.