145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

Grænlandssjóður.

894. mál
[14:22]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Grænlandssjóð. Um er að ræða breytingar á núgildandi lögum um sjóðinn. Sjóðurinn er þannig samsettur miðað við núgildandi lög að reglurnar um hann og löggjöfin um hann gera það að verkum að ekki hafa verið veittir styrkir úr sjóðnum frá árinu 2011. Í sjóðnum eru nú um 70 millj. kr. en lögin um Grænlandssjóð frá árinu 1980 kveða á um að aðeins megi veita 9/10 hluta af vaxtatekjum sjóðsins í styrki. Vaxtatekjurnar hafa verið litlar sem engar og stundum neikvæðar, þannig að ekki hefur verið hægt að úthluta úr sjóðnum. Hér er lagt fram frumvarp sem á að greiða fyrir því að hægt sé að nýta þá fjármuni. Það þýðir að gera má ráð fyrir að sjóðurinn dugi í 30–40 ár áður en hann verður uppurinn, nema til komi auknir fjármunir í sjóðinn.