145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

vaxtagreiðslur af lánum almennings.

[15:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er sett af stað mikilvæg umræða sem snertir marga þætti efnahagsmála. En málshefjandi, sem ég vil þakka fyrir að efna til umræðunnar, nefnir sérstaklega vaxtastefnuna og eftir atvikum þá peningamálastefnu sem við höfum fylgt.

Ég ætla að byrja á því að lýsa þeirri skoðun minni að það er ekkert lögmál að vextir á Íslandi séu mun hærri en í öðrum löndum. En það eru ástæður fyrir því að vextirnir hafa að jafnaði verið hærri. Þær eru nokkrar. Sú veigamesta er sú að við höfum um allt of langt skeið séð vinnumarkaðinn taka út launahækkanir sem eru langt umfram þá framleiðniaukningu sem er að verða í landinu. Ég held að hægt sé að segja að það hafi líka gerst í síðustu lotu, að margt hafi hjálpað okkur í ytra umhverfinu og forðað okkur frá því að sjá áhrif síðustu kjarasamninga smitast út í verðlagið með verðbólgu. Að því leytinu til höfum við búið við algerar kjöraðstæður til þess að vinna með niðurstöðu síðustu kjaralotu.

Í gegnum tíðina höfum við Íslendingar verið þekktir fyrir að ná niðurstöðu í kjarasamningum sem eru í ekki nokkru einasta samhengi við efnahagslega stöðu landsins og búa þannig til verðbólgu sem heldur uppi háu vaxtastigi sem leiðir aftur til næstu kjaralotu þar sem menn þurfa að vinna til baka það sem tapast hefur, sem viðheldur vaxtastiginu og leiðir til verðbólgu og svo framvegis. Við höfum verið föst í einhvers konar vítahring þessara mála.

Þess vegna er sú vinna sem unnin hefur verið á undanförnum árum til að bæta vinnumarkaðslíkanið á Íslandi alger grundvallarforsenda þess að við náum betri árangri.

Hér er nefnt að í öðrum löndum sé vaxtastigið mun lægra og hafi verið lengi, eins og t.d. í Svíþjóð. En það er líka þannig í Svíþjóð að menn hækka ekki laun um 10–12% eins og við erum vön að gera á einu til tveimur árum. Við hækkuðum t.d. laun um 13% á síðustu 12 mánuðum. Það gera engar aðrar þjóðir. En það er meginástæðan fyrir því að vextirnir eru hærri hér en annars staðar. Önnur mjög mikilvæg ástæða snýr að opinberum fjármálum. Við höfum á þessu kjörtímabili tekið höndum saman hér á þinginu, þvert á alla flokka, og bundið í lög nýjar reglur um opinber fjármál. Ég held að það sé eitt mesta framfaraskref sem snertir þetta efni hér sem stigið hefur verið í háa herrans tíð.

Spurt er um bankakerfið, komið hefur verið aðeins inn á það. Ég tel að ríkið hafi ekki hlutverki að gegna þar til langs tíma sem samrýmist þeirri stöðu sem er uppi í dag, þ.e. að við eigum að draga úr umfangi ríkisins á fjármálamörkuðum. Það er ekkert ríki sem við berum okkur saman við í nokkru samhengi sem býr við þær aðstæður að ríkið eigi bróðurpartinn af bankakerfinu. Það tíðkast hvergi og er engin þörf fyrir það. Við skulum ekki gleyma því að ríkið bindur með eignarhlutum sínum í fjármálafyrirtækjum hátt í 500 milljarða eignarhlut sinn þar. Því getum við hins vegar ekki breytt á einni nóttu. Við eigum að setja okkur langtímamarkmið um að breyta þeirri stöðu.

Vinnumarkaðslíkanið sem ég hef hér verið að ræða hangir líka á því að okkur takist að jafna lífeyrisréttindi. Okkur berast slæmar fréttir í því efni í dag frá aðilum vinnumarkaðarins sem segja að ekki séu forsendur fyrir því að halda áfram með SALEK-samkomulagið ef ekki eigi að jafna lífeyrisréttindin. Fleiri mál eru reyndar nefnd þar til sögunnar, en þetta er auðvitað grundvallarmál. Og nú stöndum við frammi fyrir því, fyrir árslok þessa árs, að svara þeirri spurningu: Ætla menn hér að breyta vinnumarkaðslíkaninu með þeim nauðsynlegu aðgerðum sem öllum á að vera kunnugt um hverjar eru? Ætlum við að jafna lífeyrisréttindin eða ætlum við áfram að búa við misrétti í lífeyrismálum, Íslendingar? Ég segi nei við því. Við verðum einfaldlega að ljúka þeirri vinnu.

Síðan skulum við hafa í huga að ábyrg ríkisfjármálastefna inn í næstu ár er sömuleiðis forsenda þess (Forseti hringir.) að hér ríki sá stöðugleiki sem ríkt hefur og við fáum vextina niður. Það er vel hægt að ná lægri vöxtum. Við getum bara ekki hegðað okkur eins og við höfum gert.