145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:48]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Að endingu vil ég segja um samgönguáætlun að það plagg sem er til umfjöllunar er auðvitað minnisvarði um glötuð tækifæri, minnisvarði um lélega verkstjórn, vegna þess að hér erum við með áætlun sem er ekki bara tvö ár fram í tímann, hún er líka tvö ár aftur í tímann sem undirstrikar það hversu illa hefur verið haldið á þessum málaflokki á kjörtímabilinu.

Ég vil segja að lokum, því að ég hef haldið þrjár ræður áður og tími minn er af skornum skammti í fjórðu ræðu um þetta mál, að við í minni hluta samgöngunefndar hvetjum til þess í nefndaráliti okkar að samstarf verði haft við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um þróun og fjármögnun svokallaðrar borgarlínu, nýs léttlesta- eða hraðvagnakerfis á grundvelli svæðisskipulags á höfuðborgarsvæðinu. Slíkt kerfi mundi stórefla almenningssamgöngur og auðvelda þéttingu byggðar um allt höfuðborgarsvæðið og þar með yrði unnið í þágu loftslagsmarkmiða og dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Í því samhengi minnum við á að samþykkt var á 144. löggjafarþingi þingsályktunartillaga um athugun á hagkvæmni lestarsamgangna þar sem Alþingi ályktaði að fela innanríkisráðherra að láta kanna hagkvæmni lestarsamgangna milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur annars vegar og léttlestakerfis innan höfuðborgarsvæðisins hins vegar. Þeirri vinnu átti samkvæmt samþykkt Alþingis að ljúka um mitt ár 2016, að vísu bólar ekkert á henni, en það er mikilvægt að henni verði lokið sem fyrst. Þetta snertir á málaflokkum sem ég hef tæpt á í fyrri ræðum mínum um mikilvægi þess að byggja upp almenningssamgöngukerfi sem er raunverulegt og gagnast öllum og er raunverulegur valkostur við aðra samgöngumáta.

Eins hef ég líka tæpt á skorti þeim sem er á almenningssamgöngum á milli alþjóðaflugvallarins okkar í Keflavík og höfuðborgarsvæðisins. Það er í raun og veru ekki hægt fyrir einstakling sem kemur til landsins að fara úr flugstöðinni beint um borð í strætó eða að nýta sér almenningssamgöngur. Fólk verður að nýta sér einkabíl, leigubíl eða rútusamgöngur, eða svokallaða flugvallaskutlu. Það er óásættanlegt. Við eigum að vera með þessi mál þannig undirbúin og umbúnað þeirra þannig að fólk geti nýtt almenningssamgöngur.

Það hefur tekist ágætlega í samstarfi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðarinnar að undirbúa og gera svokallaða hjólreiðastíga víðs vegar um borgina. Það er gríðarlega merkilegt verkefni sem er enn í gangi og verður gaman að fylgjast með því hvernig því vindur fram. En á sama hátt eiga sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og stjórnvöld að vinna í samræmi við þá þingsályktun sem var samþykkt hér um árið, um að kanna möguleikann á léttlestakerfi. Ég held að það sé rökrétt næsta skref. Ég held að það sé líka rökrétt næsta skref þegar kemur að samtengingu á milli Keflavíkur og höfuðborgarsvæðisins.

Það er annað sem er líka merkilegt að velta fyrir sér um það hvernig tíminn hefur áhrif og framþróunin hefur áhrif á það hvernig við sjáum samgöngumálin. Nú erum við farin að heyra raddir þess efnis af landsbyggðinni, athafnamaðurinn Róbert Guðfinnsson á Siglufirði t.d. hefur bent á að það sé í raun og veru hluti af framtíðarsýninni, eins og hann sér það, að settur verði nýr flugvöllur í Hvassahraun sem tengi saman innanlandsflug og millilandaflugið. Auðvitað er rökrétt að skoða þannig framþróun málaflokksins. Það þjónar hagsmunum landsbyggðarinnar ákaflega vel að gera ferðamönnum kleift að koma til landsins og fara beint út á landsbyggðina án viðkomu á höfuðborgarsvæðinu, á suðvesturhorninu, þar sem mesti mannfjöldinn er. En ég hef komið inn á þetta í annarri ræðu minni.

Ég vil að endingu segja: Ég er mjög ánægður með það samstarf sem náðist á lokametrunum innan samgöngunefndar og vona að stjórnarflokkunum og okkur í þinginu muni takast að afgreiða eins og eitt stykki samgönguáætlun á þessu kjörtímabili.