145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Það eru um margt athyglisverðir og skemmtilegir tímar nú í stjórnmálunum, bæði í kosningabaráttunni sem er í algleymi og svo hér á Alþingi þar sem hvert stórmálið rekur annað á dagskrá þingsins. Í gær samþykktum við hér á Alþingi lagafrumvarp þar sem tónlistarmenn fá endurgreiddan 25% af kostnaði vegna hljóðritunar á tónlist á Íslandi, sama á við lög um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar sem kveða þar á um. Ekkert nema gott um það að segja, virðulegi forseti, þetta mun efla íslenska tónlist og íslenska kvikmyndagerð og vonandi laða að viðskipti að utan líkt og reyndin er með kvikmyndagerð. Þetta mun þannig skila sér í öðru formi í meiri tekjum er ég sannfærður um en þeim sem ríkissjóður er að fórna, felur í sér nýsköpun, fjölbreyttari atvinnumöguleika og ekki síst listauka. Eins eigum við að horfa til eflingar viðurkenndra frjálsra félagasamtaka sem hér á margvíslegan hátt taka okið af yfirvöldum og spara skattfé almennings.

Mér er hugleikin starfsemi íþrótta-, æskulýðs- og ungmennafélaga. Þar fer fram starf tugþúsunda manns mestmegnis í sjálfboðavinnu, starf sem við eigum að verja og efla. Yfir þessa starfsemi þarf að byggja og það þarf að viðhalda þessum byggingum og víða eru þetta samfélagsstoðir sem stuðla að heilbrigði, líkamlegu og andlegu. Þar læra börn og unglingar aga og ástundun, að setja sér markmið og sjálfsmynd þeirra vex sem mun nýtast þeim á fjölbreyttan hátt í námi, í leik og í starfi. Þetta er um leið, met ég, ódýrasta og öflugasta uppbyggingar- og forvarnastarf sem við getum unnið að og stutt með svipuðum hætti og við styðjum þessar greinar, hljóðritun tónlistar og kvikmyndagerð.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna