145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar, hugsanlega í síðustu ræðu sem ég flyt í þessum ræðustól, að tala aðeins um neytendamál. Ég fór fyrir hópi sem innanríkisráðherra skipaði sem átti að leggja fram þingsályktunartillögu um neytendamál. Í þeim hópi sátu fulltrúar úr öllum flokkum hér á þingi. Við skiluðum niðurstöðu sem ég ætla rétt að vona að næsti innanríkisráðherra taki upp úr skúffunni og framfylgi.

Við bendum á ýmislegt sem mun bæta réttarstöðu neytenda og bent hefur verið á flest af því fyrr á tímum, jafnvel í skýrslum frá árinu 2007, það er hægt að fara svo langt aftur.

Eitt af því sem við tókum upp var innheimta sérstakra lántökugjalda á neytendalán, en nú erum við einmitt að fara að samþykkja hér í þinginu löggjöf um að ekki verði lengur heimilt að hafa lántökugjaldið hlutfall af lánsfjárhæðinni, enda — virðulegi forseti, afsakið að ég sletti — meikar það ekki sens. Umsýsla með lán þarf ekki endilega að vera hlutfall af fjárhæðinni. Nú sé ég til dæmis að Landsbankinn er byrjaður að auglýsa, hann ætlar ekki að notast við þetta lengur. Þá hugsar maður með sér: Nú er að koma löggjöf, kallað hefur verið eftir þessu í mörg ár og jafnvel í áratugi og þegar löggjafinn ákveður loksins að gera eitthvað þá bregðast fyrirtækin við. Það er nefnilega þannig að markaðurinn er ekki lausnin við öllu.

Mig langar til dæmis að benda á að þegar Evrópusambandið sá að fjarskiptafyrirtækin voru að rukka viðskiptavini sína um fáránlega háar upphæðir fyrir reikisímtöl, þá var sett löggjöf þar sem sagt var: Markaðurinn ræður ekki við þetta, við þurfum að bregðast við. Við setjum þak á þá upphæð sem fyrirtækin mega innheimta. Það er mjög mikilvægt að hér á þingi séu flokkar (Forseti hringir.) sem hafi neytendamálin í forgangi og grípi inn í þegar þörf er. Markaðurinn reddar ekki öllu sjálfur.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna