145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Frá því ég nefndi hér úr ræðustól Alþingis það sem ég taldi vera mannréttindabrot á fimm ára dreng, sem norsk yfirvöld kölluðu eftir að fluttur yrði til Noregs, hafa mér borist margir póstar sem leiða í ljós að víða er pottur brotinn í samskiptum hér heima á milli foreldra og barna. Börnin verða mitt á milli foreldra sinna sem geta ekki komið sér saman um umgengnisrétt og annað foreldrið hamlar því og tálmar að hitt foreldrið geti haft samskipti við börnin sín.

Í barnaverndarlögum og í barnalögum er það skýrt að löggjafanum eða yfirvöldum ber að bregðast við. Ég tel að fylgja þurfi betur eftir þeim lögum sem við höfum til að tryggja að fullorðið fólk láti ekki ágreining bitna á börnum, að fólk reyni að tryggja að löggjöfin geti komið þar inn og leyst úr slíkum málum fyrir barnið, ekki úr ágreiningi fullorðna fólksins heldur þann ágreining sem veldur því að barnið nýtur þess ekki að umgangast foreldra sína, móður- eða föðurfjölskyldu. Þetta skiptir máli, virðulegi forseti. Við þurfum að laga þetta.

Virðulegur forseti. Af því að ég er nú líklegast að tala hér sem þingmaður í síðasta sinn í störfum þingsins vil ég þakka kærlega fyrir mig. Ég hef orðið þess heiðurs aðnjótandi að sitja hér sem þingmaður frá árinu 2007. Við höfum á þeim tíma gengið í gegnum súrt og sætt í þessari stofnun. Ég hef eignast marga góða og trausta vini. Ég óska Alþingi, starfsmönnum þess og stofnuninni sjálfri, sérstaklega velfarnaðar á komandi árum og segi bara: Takk fyrir mig.


Efnisorð er vísa í ræðuna