145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil byrja á að leiðrétta það sem hv. þm. Jón Gunnarsson sagði hér rétt í þessu um að stjórnarandstaðan bæri ábyrgð á því að ríkisstjórninni hefði ekki tekist að leiða til lykta samkomulag um að jafna réttindi lífeyrissjóða landsins. Það hefur bara ekki neitt með minni hlutann að gera. Það hefur allt að gera með það hvernig lögin voru sniðin og hvernig þeir sem voru að semja við ríkisstjórnina upplifðu að þeir hefðu verið sviknir. Rétt skal vera rétt, forseti.

Mig langar að vekja athygli á því að það er æði oft sem börn hælisleitenda, börn sem eru fædd hér á landi og börn sem leita hér skjóls, eru send fyrirvaralaust úr landi. Allt of oft berast fregnir af því að fólk, og sér í lagi börn, sem hefur leitað hér skjóls og hefur beðið mjög lengi eftir niðurstöðu fær símtal frá lögreglustöðinni um að það eigi að mæta til að hægt sé að vísa því úr landi. Mér finnst þetta óhugnanlegt í ljósi þess að hagsmunir barnanna eru aldrei settir í forgang. Börnin eru aldrei spurð. Umboðsmaður barna hefur meðal annars gagnrýnt aðstæður barna sem koma hingað til lands í leit að alþjóðlegri vernd og sagt málsmeðferðina brjóta í bága við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt honum eiga börn alltaf að eiga rétt á að tjá sig áður en teknar eru ákvarðanir er varða þau, en í fæstum málum fá börn tækifæri til að tjá sig áður en ákvörðun er tekin. Mér finnst þetta okkur til vansa. Mig svíður í hjartað að tala ítrekað við fólk sem býr með börn við ómögulegar aðstæður. Nú á að fara að vísa óléttri konu úr landi, konu sem eignaðist barn hér og það skilur einvörðungu íslensku. Og það á að senda þau til Nígeríu. Er ekki nóg komið af ómannúðinni hér?


Efnisorð er vísa í ræðuna