145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Í dag verður tekið á dagskrá þessa þings frumvarp um almannatryggingar, frumvarp sem felur í sér einföldun á kerfi lífeyrisgreiðslna eldri borga frá Tryggingastofnun þar sem frítekjumark verður 25 þús. kr. og skerðingarhlutfall allra tekna verður 45%. Þetta er mikil einföldun á kerfinu og mun hafa í för með sér verulega hækkun fyrir þá sem lægstir standa. Það mun tryggja að um næstu áramót fara lægstu laun í 280 þús. kr. og lífeyrir mun síðan færast í 300 þús. kr. í byrjun árs 2018, sem hefur verið keppikefli Félags eldri borgara og Landssambands eldri borgara um langa tíð, en þó aðallega að einfalda kerfið.

Hér er því gott mál á ferðinni. Það hefur vakið athygli mína hve minni hlutinn í þinginu hefur verið pirraður yfir þessu. Minni hlutanum hefur fundist að ekki sé nógu langt gengið og hefur haft allt á hornum sér við það að laun eldri borgara hækki verulega á næstunni. Það sama fólk var í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili. Fyrsta verk þeirra var að skerða kjör örorkulífeyrisþega og eldri borgara. Það var þeirra fyrsta verk. Ég er ekkert hissa á því að þau skuli ganga fram núna eins og þau gera miðað við það sem þá var gert. Mig langar að minna á að þeir sem sitja á þingi í dag og kusu með þeim lögum að skerða réttindi eldri borgara voru hv. þm. Árni Páll Árnason, Helgi Hjörvar, Kristján L. Möller, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Ögmundur Jónasson og Össur Skarphéðinsson.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna