145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég eins og eflaust margir í þessum sal vildi gjarnan vera að störfum úti í mínu kjördæmi þessa dagana, en á sama tíma er ég afar stolt af þeim málum sem við erum að afgreiða hér í þingsal. Eitt af þeim verkefnum sem mér hefði þótt áhugavert að koma að er þátttaka á fundum og atburðum í tengslum við lýðræðisviku og skuggakosningar í framhaldsskólunum. Landssamband æskulýðsfélaga og Samband íslenskra framhaldsskólanema standa fyrir lýðræðisátakinu Kosningavakning: #égkýs. Verkefnið hefur verið í undirbúningi í nokkra mánuði og er markmiðið að efla lýðræðisvitund, hvetja ungt fólk til að kjósa og taka upplýsta ákvörðun í kjörklefanum. Auk vinnu í skólunum hefur heimasíðan Ég kýs verið stofnuð. Hún virkar sem gagnabanki fyrir lýðræðisfræðslu og geymir ýmsar upplýsingar, svo sem Kosningavitann sem nýtist ungu fólki jafnt sem öðrum. Í mörgum skólum hefur stjórnmálamönnum verið boðið að koma í heimsókn og kynna sín framboð á fundum eða í spjalli við nemendur, allt skipulagt af nemendum sjálfum. Skuggakosningarnar sjálfar fara svo fram 13. október, en niðurstöður verða gerðar opinberar eftir að kjörstaðir vegna alþingiskosninga loka þann 29. október. Mér finnst þetta verkefni til mikillar fyrirmyndar og tel að það geti skipt miklu máli fyrir lýðræðislegan áhuga og þátttöku ungs fólks.

Jafnframt vil ég nefna mikilvægi þess að ungt fólk fái þjálfun í félagsstarfi í gegnum starf í nemendafélögum, íþróttafélögum eða öðrum félagsskap. Þá er jafn mikilvægt að öðlast þekkingu á skipulagi funda, fundarsköpum og leikreglum lýðræðisins eins og færni í ræðumennsku. Árangur af stjórnmálastarfi ræðst nefnilega ekki síður af félagslegri hæfni og félagslegri þjálfun þeirra einstaklinga sem veljast til starfa í stjórnmálum en þekkingu á einstökum málaflokkum.


Efnisorð er vísa í ræðuna