145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:12]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kom inn á það í ræðu minni áðan hvernig stjórnarandstaðan hefur með skipulögðum hætti tafið mjög góð mál. Bakkamálið er skýrasta dæmið um það sem við sjáum síðan að er í algerri upplausn á eftir. Þó að ríkisstjórnin hafi afgreitt þetta með þeim hætti sem hún gerði í morgun liggja auðvitað fyrir möguleikar á frekari kæruferlum í þessu máli og við sjáum ekki fyrir endann á því.

Það vekur athygli að á dagskrá þingsins er ekki mál um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Ég vil kalla eftir því á dagskrá. Þetta er stórmál sem við þurfum að taka ítarlega umræðu um í þinginu. Það eru skiptar skoðanir um það og ég trúi ekki öðru en að þingið muni sameinast um að afgreiða þetta mál að vilja lýðræðislega kjörins meiri hluta þingsins og tel að það sé gríðarlega mikilvægt.

Það er annað stórmál sem er komið út úr hv. atvinnuveganefnd sem snýr að þang- og þaravinnslu í Breiðafirði. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál fyrir byggðirnar við Breiðafjörð og kemur til að mynda að uppbyggingu nýs vinnustaðar í Stykkishólmi upp á 30–40 störf. (Forseti hringir.) Það er undir í þessu máli. Ég hvet hæstv. forseta til að eiga samtal við þingflokksformenn um að þetta mál megi koma á dagskrá og hljóta afgreiðslu þingsins áður en við ljúkum störfum.