145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:13]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er þakklátur hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir að fara hér upp og gefa manni færi á að fylgja í kjölfar hans því að ég ætla ekki að sitja undir þessum fáránlega spuna hv. þingmanns og annarra hér úr stjórnarmeirihlutanum um að stjórnarandstaðan sé að stöðva mál sem ríkisstjórnin er að magalenda með. Hún kom með hugmyndir um lagafrumvarp vegna Bakka til að greiða fyrir þeirri framkvæmd. Úrskurður sá sem fyrir liggur af réttbærum stjórnvöldum gerir það ómögulegt fyrir hana að halda áfram með frumvarpið. Það er ekki við stjórnarandstöðuna að sakast í því efni. Ég hefði alltaf verið tilbúinn að skoða slíkt frumvarp ef það væri málefnalegt. Það er bara engin leið að útbúa slíkt frumvarp þannig að það haldi samkvæmt lögum og stjórnarskrá. Þess vegna er ríkisstjórnin að gefast upp og verður að viðurkenna það og ekki kenna öðrum um eigin vammir.

Varðandi lífeyrissjóðsmálið sem hæstv. félagsmálaráðherra fór hér upp næstum því tárbólgin í gær yfir að væri ekki verið að afgreiða, þá er það ákvörðun ríkisstjórnarinnar að afgreiða það ekki. Ég sat með öðrum fulltrúa stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur, með stjórnarmeirihlutanum í fjárlaganefnd klukkustundum saman og hvatti meiri hlutann til að halda áfram með málið, hét stuðningi okkar við það ef það yrði reynt að finna (Forseti hringir.) leiðir til að fara með það áfram. Ríkisstjórnin er að magalenda sínum málum. Það er við ríkisstjórnina að sakast, ekki þá sem hafa reynt að greiða för mála í gegnum þingið.