145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:15]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það verður ekki af hv. þm. Jóni Gunnarssyni skafið að hann er hugrakkur þingmaður, sérstaklega að koma hér upp og fjalla um þau mál sem nauðsynlegt sé að afgreiða, eftir að hafa haldið þinginu algerlega að nauðsynjalausu dögum saman við umræður um þingmál um lög á raflínur sem ríkisstjórnin kemst síðan sjálf að niðurstöðu um í morgun að ekki sé þörf á að setja. Ég verð líka að nota þetta tækifæri og vísa því á bug að stjórnarandstaðan hafi með einhverjum hætti stoppað frumvarp til laga um samræmingu lífeyrisréttinda. Það er sömuleiðis bara ákvörðun ríkisstjórnarinnar, að hún hafi verið að gera Alþingi einhvers konar bjölluat með því máli. Þær forsendur sem hún sjálf lagði fyrir því að koma með málið inn í þingið reyndust ekki standast. Hún sjálf féll frá því að fara fram með málið og ljúka því. Hv. þm. Jón Gunnarsson verður bara að ræða þetta í þingflokki Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) og við formann Sjálfstæðisflokksins en ekki okkur í stjórnarandstöðu.