145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:21]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vona að síðasta hv. ræðumanni verði að ósk sinni. Það er auðvitað ekki hægt að kalla það annað en bjölluat, þá umræðu sem verið hefur um lagafrumvarp um Bakka. Hér hefur stjórnarmeirihlutinn farið fram í margra klukkustunda umræðum, dag eftir dag, um að það sé algerlega lífsnauðsynlegt að Alþingi beiti sér eftir á með lagasetningu inn í mál til að koma í veg fyrir að úrskurðir gangi. Frekar óheppileg aðferð við lagasetningu. Svo þegar málið hefur verið hér í umræðum dögum saman ákveður sami stjórnarmeirihluti að það sé engin þörf fyrir þetta frumvarp sem stöðugt er haldið fram að sé algerlega lífsnauðsynlegt setja fram. Það er áfellisdómur um það hvernig gengið var fram í því máli ef engin var þörf á þessari lagasetningu. Það er niðurstaða þeirra sjálfra sem frumvarpið fluttu að óhjákvæmilegt sé að draga það til baka, það sé einfaldlega engin þörf á lagasetningu. Það þýðir ekkert að sakast við okkur í stjórnarandstöðunni um það. Það eru bara mistök (Forseti hringir.) stjórnarmeirihlutans að koma hér inn með mál sem hann sjálfur telur að þurfi ekki lagasetningu á þegar upp er staðið.