145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:25]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það er svolítið kómískt að horfa á hv. ríkisstjórnarflokka klóra í bakkann á síðustu metrunum út af þessu blessaða Bakkamáli sem var nú bara einfaldlega mistök frá A til Ö þegar kom að skipulagsmálum og náttúruverndarlögum og þar fram eftir götunum. Ég veit ekki alveg hverjum er um að kenna þar. Það er einfaldlega ekki þannig að stjórnarandstaðan hafi eitthvert dagskrárvald yfir þessu blessaða þingi heldur er það virðulegur forseti og hann stendur sig með prýði. Ég legg til að við höldum aðeins áfram með þetta starf og þetta málþóf meiri hlutans um að kenna okkur minni hlutanum um það sem misfarist hefur á þessu kjörtímabili. Var Panama-lekinn ekki kannski okkur að kenna líka? Það virðist vera sem svo að allt sem hefur misfarist sé okkur að kenna. Við skulum taka allt á okkur svo að við getum lokið þessu þingi. Því þetta er að verða svolítið leiðinlegt.