145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[11:36]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum, aðallega um ýmsar breytingar á skattalögum til eflingar skattheimtu og markmiði um að vinna gegn skattasniðgöngu vegna eignarhalds í lágskattaríkjum, og viðbrögð íslenskra stjórnvalda sem eru hluti af alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði.

Ég vil nefna lögfestingu skilgreiningar á fastri starfsstöð sérstaklega, takmörkun á frádrætti vaxtagjalda eða aðgerðir gegn þunnri eiginfjármögnun og hugmyndafræði áhættustjórnunar til skilvirkara tolleftirlits og tollafgreiðslu. Ég vil jafnframt þakka gott og nauðsynlegt samstarf við sérfræðinga fjármála- og efnahagsráðuneytis, hvaðan frumvarpið kemur, og full ástæða til að þakka nefndarritara fyrir þolinmæði og nákvæm vinnubrögð. Á endanum var full samstaða í hv. efnahags- og viðskiptanefnd um allar þær breytingar sem hér eru lagðar til og ég þakka nefndarmönnum góða samvinnu.