145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:46]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er mikið fagnaðarefni að við séum að bæta við þingsályktun um samgönguáætlun um rétt tæpa 12 milljarða. Þessir tæpir 12 milljarðar fara í verkefni hringinn í kringum landið. Það er sérstaklega ánægjulegt að við séum núna að koma t.d. Dettifossvegi í höfn. Við erum að fara að gera nýtt flughlað á Akureyri og farið verður í mörg brýn verkefni hringinn í kringum landið.

Ég vil taka undir með hv. þm. Helga Hjörvar um að við náðum að klára þetta mál fyrir atbeina forsætisráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar. Áhuginn úr því ráðuneyti hafði verið nánast enginn fyrir þann tíma. Það er mikið gleðiefni að við skulum nú loksins á lokametrunum ná að bæta í þennan mikla málaflokk. Það er gott, ekki bara fyrir kjördæmið mitt heldur allt landið. Ég vil þakka bæði meiri hluta og minni hluta fyrir gott samstarf á öllu kjörtímabilinu. Við náðum þessu (Forseti hringir.) á lokametrunum og fyrir það ber að þakka.