145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:49]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir hér í umræðunni þakka fyrir að þetta mál sé á lokametrunum. Mig langar að nefna nokkur atriði sérstaklega og fagna því að við séum að setja 2 milljarða aukalega í viðhald og færa það úr 6 milljörðum í 8. Það er gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir samgöngukerfið okkar alls staðar um landið. Við bætum tæpum 12 milljörðum í það, plús í nýsmíði í Herjólfi, sem eru 3,6 milljarðar, sem verður gríðarleg samgöngubót fyrir Vestmannaeyjar. Ég vil líka fagna sérstaklega áherslum hjá ráðherra og umhverfis- og samgöngunefnd á hafnir, en aukið er verulega í hafnarbótasjóð. Halda þarf höfnum landsins við. Að lokum fagna ég fækkun einbreiðra brúa. Mér sýnist í þessari áætlun að einbreiðum brúm verði fækkað á næstu tveimur árum um átta til tíu. (Forseti hringir.) Við þurfum að halda áfram á þessari braut á næstu árum.