145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:54]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það sem einkennt hefur þessa umræðu öðru fremur er sú samstaða sem ríkt hefur um að nauðsynlegt sé að byggja jarðgöng úti á landi, tengja saman byggðir, stækka atvinnusvæði. Á það hefur verið bent að það hefur skipt miklu máli, sérstaklega fyrir konur sem hafa nýtt sér þessa samgöngubót, það segir okkur rannsókn Háskólans á Akureyri.

Við erum ekki eingöngu að greiða atkvæði um rannsóknir jarðganga milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar heldur greiddum við áðan atkvæði um rannsóknir og frumhönnun á jarðgöngum milli Siglufjarðar og Fljóta. Við vitum hversu mikilvæg Héðinsfjarðargöngin voru fyrir Fjallabyggð og Siglufjörð. Þau göng sem við höfum nú þegar greitt atkvæði um, á milli Siglufjarðar og Fljóta, verða jafn mikilvæg. Það er mikið gleðiefni að þingið samþykki það hér í dag.