145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[11:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér við 3. umr. fyrir breytingartillögu við frumvarp til laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Með breytingartillögunni er afturkölluð sú breyting sem hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason lagði til við 2. umr. málsins, en verði sú breyting ekki afturkölluð getur skapast óvissa um túlkun lagaákvæða frumvarpsins og einnig getur skapast töluverð óvissa um þann kostnaðarauka sem kann að falla á ríkissjóð og sveitarfélög. Það er því nokkuð mikilvægt að fyrirsögn og efni 3. gr. frumvarpsins verði færð til upprunalegs horfs og þessi atriði fái að standa eins og þau voru upprunalega í frumvarpi ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í.) Verði þessi tillaga sem ég mæli hér fyrir samþykkt verður efni 3. gr. fært í sitt upprunalega horf og þannig komið í veg fyrir óvissu í túlkun laganna og kostnaðarauka ríkisins.