145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[11:58]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Þessi breytingartillaga sem kemur hér fram frá hv. þm. Frosta Sigurjónssyni hryggir mig mjög. Fólk tekur lán eftir því sem skynsemin leyfir því. Fólk tekur lán á þann veg að það reynir að taka lán á sem lægstum vöxtum og reynir að lágmarka fjármagnskostnað sinn. Það hefur komið fram í gögnum þessa máls, frá m.a. Seðlabankanum og í prentuðum gögnum í riti Seðlabankans um efnahagsmál frá 2013, að þessi lán sem þingheimur ætlar að skylda landsmenn til að taka, fasteignalán, eru dýrustu lán á markaðnum. Það er verið að bjóða fólki upp á að nota viðbótarlífeyrissparnað sinn til þess að greiða niður dýrustu lán á markaðnum. Ég segi ósköp einfaldlega: Svona bjánaskapur gagnast einum hagsmunaaðila, hann gagnast hagsmunaaðilanum sem heitir bankar, fjármálastofnanir. Hér er þingheimur að taka sér vald langt umfram það sem hann hefur vit til. Það að ætla sér að hafa vit fyrir lántakendum með þessum hætti er langt umfram það sem nokkur skynsemi býður. Því sé ég að flutningsmaður og hv. þingmaður og þeir sem greiða þessu væntanlega atkvæði eru hér rændir öllu skynsamlegu viti. Það er í sjálfu sér bara gott að vita það og fá talningu á því hér í þingsal.

Ég ætla líka að spyrja þingheim hér og nú að einu. Fyrir u.þ.b. þremur árum var samþykktur skattur á banka og slitabú bankanna upp á 0,376%, tæplega 0,4% skattur á slitabú bankanna. Nú ætla ég að spyrja fólk hér að því hvort það viti hvers vegna lán frá lífeyrissjóðum eru með u.þ.b. 0,4% lægri vöxtum en lán frá bönkunum? Það er vegna þess að þessi svokallaði bankaskattur er bara ekkert greiddur af bönkunum, hann er greiddur af lánþegum. Hér flytja ýmsir þjóðhagfræðingar ræður um háa vexti. Ég segi ósköp einfaldlega að ýmsar gerðir þingmanna má skoða, t.d. eins og þessi bankaskattur sem var samþykktur með 62 atkvæðum gegn einu. Þegar svo er, þegar einn er á móti, er örugglega eitthvað að atkvæðagreiðslu, þá segir skynsemin mér að það sé örugglega glórulaus atkvæðagreiðsla, þ.e. að við erum að halda uppi vöxtum sem neytendur borga þegar markmiðið er að reyna að lækka vexti. Þetta er árangurinn.

Ég segi ósköp einfaldlega: Ég bið þingheim að láta nú skynsemina ráða og ég bið þingheim að leyfa lántakendum að ráða. Lántakendur geta gengið inn í fjármálastofnanir, beðið um sín lán og fengið þær greiðsluraðir sem þeim hentar og skiptir ekki máli hvort lánin eru svokölluð óverðtryggð lán eða ekki. Hvað eru óverðtryggð lán? Ég þekki þau ekki. Þau eru hvergi til skilgreind í lagatexta. En það virðist mega ráða af ýmsum málflutningi að óverðtryggð lán séu lán þar sem fjármálastofnanir ákvarða vexti að geðþótta eða ágiskun. Það hefur komið í ljós að þessi óverðtryggðu lán eru u.þ.b. hálfu til heilu prósenti hærri en þau lán sem eru í boði þar sem breytileikinn vegna verðbólgu er mældur með hlutlægum hætti.

Alþingi ætlar að láta kaupendur fyrstu íbúða nota viðbótarlífeyrissparnað sinn til þess að þóknast bönkum með þessum bjánaskap. Ég bið þingmenn um að gæta varúðar í þessu máli og fella þessa breytingartillögu. Það var þó komin nokkur skynsemi í þetta mál með því sem var samþykkt hér í gær. Ég endurtek: Þessi bjánaskapur gagnast engum nema bönkunum.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.