145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði hugsað mér að styðja hv. þingmann í þeirri tilraun hans sem hann fékk samþykkta við 2. umr. um að þessi ívilnun af hálfu hins opinbera væri ekki bundin við eitt tiltekið lánsform. Mér leikur forvitni á að vita hvort þetta hafi ekki verið rætt sérstaklega í nefndinni og vildi gjarnan spyrja hv. þingmann um það hvernig umræðan um þetta hefði fram innan nefndarinnar. Það er hægt að taka bara raunhæft dæmi síðasta árið vegna þess að í kjölfar kjarasamningsbundinna hækkana var gert ráð fyrir mikilli verðbólgu á Íslandi. Þá er það nú þannig að á síðasta ári hafa vextir óverðtryggðra lána verið a.m.k. prósenti hærri en verðtryggðra. Þannig að fólkið sem hefur tekið verðtryggt lán síðasta árið hefur hagnast af því að það er bara raunmæling á verðbólgunni sem ræður kjörunum á meðan, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, bankar hafa getað að eigin geðþótta hækkað hin óverðtryggðu lán til að búa sér til axlabönd og belti og verja sig gegn allri mögulegri verðbólgu sem síðan hefur ekki orðið. Og fólkið í landinu sem tók óverðtryggt lán fyrir ári síðan er búið að bera kostnaðinn.

Ég hlýt þess vegna að spyrja: Er það yfirveguð afstaða einhverra og kom það fram í nefndinni að það væri með einhverjum hætti skynsamlegt að gefa bönkunum í landinu veiðileyfi með þessum hætti á venjulegt fólk, og að koma í veg fyrir að fólk gæti varið sig fyrir einhliða tilviljanakenndum vaxtaákvörðunum banka með því að taka verðtryggð lán? Hversu langt á þessi furðulega órökstudda herferð gegn verðtryggingu sem valkosti eiginlega að ganga af hálfu stjórnarflokkanna?