145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:11]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér breytingartillögu við frumvarp til laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Breytingartillagan er á þingskjali 1787 og var flutt af formanni efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Frosta Sigurjónssyni. Við 2. umr. málsins í gær greiddum við atkvæði hér í þingsal og samþykktum breytingartillögu 2. minni hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar.

Breytingartillagan sneri að 3. gr. frumvarpsins þar sem lagt var til að orðið „óverðtryggt“ félli brott á tveimur stöðum, í texta og fyrirsögn. Þetta lætur kannski lítið yfir sér og snýr að hugtakanotkun — eins og kom fram í ræðu hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar, sem stendur fyrir áliti 2. minni hluta — og svo því að hvetja til sparnaðar óháð lánsformi. Það hefði þurft að taka meiri umræðu um þann þátt í nefndinni. Í fyrsta lagi er í frumvarpi sem lagt er fram af hæstv. ríkisstjórn ekki gerð grein fyrir mati á áhrifum á ríki og sveitarfélög. Í annan stað er í 2. málslið 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins lagt til að rétthafa verði heimilað að ráðstafa viðbótariðgjaldi sem afborgun inn á óverðtryggt lán. Þarna, miðað við breytinguna sem við samþykktum í gær, mun skapast lagaleg óvissa vegna tilvísunar í þennan lið í 3. gr.

Þessi breyting 2. minni hluta, sem við samþykktum í gær, breytir því eðli málsins og skilur eftir lagalega óvissu. Við verðum að bregðast við því, met ég, og styð því óhjákvæmilega þá breytingartillögu sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson mælti fyrir hér áðan.