145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:14]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í umræðum um þetta mál í nefndinni komst ekki nokkur skynsemi að. Fyrst og fremst var rætt um að samþykkja frumvarpið með örlitlum breytingum en ekki var hægt að ræða þessa breytingu, þ.e. að gæta jafnræðis á lánsformum.

Ef þessi tillaga sem ég lagði fram og var samþykkt í gær skapar lagalega óvissu er ósköp einfaldlega hægt að greiða úr þeirri lagalegu óvissu. Markmiðið hjá mér var alveg skýrt, þ.e. að gæta jafnræðis á milli lánaforma en láta ekki hv. nýráðna þjóðhagfræðinga fara að ráðskast með hag heimila í landinu með því að taka dýrustu lán sem eru í boði. Ég bara bið menn um að reyna að gæta einhverrar skynsemi. Ég sagði hér áðan: Menn voru á köflum, í umræðu í nefndinni, rændir öllu skynsamlegu viti. Mér heyrðist að þessi ræða hv. þm. Willums Þórs Þórssonar hafi verið því marki brennd, hún var rænd öllu skynsamlegu viti.

Við erum hér að styðja fólk til að kaupa sína fyrstu íbúð. Hv. þingmanni kemur ekkert við hvers konar lán viðkomandi tekur. Ekkert. Um það snýst málið. Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri þótt ég eigi eftir töluverðan tíma.