145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:16]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur eru menn rændir öllu skynsamlegu viti. Það verður engin eignamyndun við að borga af lánum. Það verður skuldaminnkun. Menn verða að fara að ræða hugtök af einhverju viti en ekki jafn grautarlega og hér hefur verið gert. Þegar menn greiða lánið stendur eignin óbreytt en skuldin lækkar. Hrein eign, sem heitir höfuðstóll, viðkomandi kann að breytast. Það var markmið og tilgangur þessa frumvarps um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Það er ósköp einfaldlega þannig að þú getur greitt inn á svokallað verðtryggt lán sömu fjárhæð og þú kynnir að greiða inn á svokallað óverðtryggt lán, þ.e. það er enginn vandi að borga áfallnar verðbætur jafnóðum. Jafnvel meira til. Skuldaminnkunin verður hraðari en í þessum jafngreiðslulánum, sem er vissulega rétt að eru létt og þægileg fyrir fólk. En það að fara að lögbinda það að fólk eigi hugsanlega að taka dýrustu lán í boði til þess að búa til eitthvað sem heitir eignamyndun — bíddu nú við. Eignamyndun gengur tiltölulega hægt ef menn eru að borga endalausa vexti. Ég get ekki haft önnur orð en þau sem ég er margbúinn að hamra á, við skulum bara höfða til eins hlutar, það er skynsemi lántaka. Hann tekur lán við upplýsta ákvörðun. Við skulum leyfa honum að njóta þess ef hann telur að svokölluð verðtryggð lán séu hagstæðari en þessi lán sem menn hafa kallað óverðtryggð en eru líka verðtryggð — við skulum bara leyfa fólki að velja. Ef löggjafinn hefur farið fram úr sér hér skulu menn reyna að bæta þar úr.

Virðulegur forseti. Ég lýk máli mínu að sinni.