145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:28]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur farið í mjög undarlegan farveg. Það kom upphaflega fram til að framlengja tímabundin ákvæði um nýtingu viðbótarsparnaðar til greiðslu lána en kemur hér fram í hálfgerðum óskapnaði á grundvelli álits svokallaðrar sérfræðinganefndar.

Þessi svokallaða sérfræðinganefnd er með fullt af rangfærslum og endaleysum sem ég ætla ekki að rekja, ég hef ekki nema korter til að tala hér. Grundvallaratriðið er að allur samanburður á greiðsluferlum er hreinlega út í hött í áliti þessarar svokölluðu sérfræðinganefndar. Það eru nefnilega til alveg þokkalegir sérfræðingar hér á þingi í lánaviðskiptum. Þetta mál var aldrei rætt við mig sem hef þó stundað kennslu í lánaviðskiptum í fjármálafræðum í 15 ár og að auki starfað á fjármálamarkaði í 25 ár þannig að samtals eru það orðin 40 ár.

Það er undarlegt að heyra það hér í þingsal að til sé pólitísk afstaða til lánaforma. Bíddu, pólitísk afstaða til vaxta eða vaxtareiknings; menn taka ekki pólitíska afstöðu til vaxtareiknings. Ég benti á það, reyndar í öðru máli, að menn hefðu varla vald á samlagningu og frádrætti en þegar komið er út í margföldun og deilingu, sem vaxtareikningur byggist á, er eins og suma hv. þingmenn bresti allt vit. Ég segi ósköp einfaldlega að í þessu máli er ég að óska eftir því að jafnræðis verði gætt.

Ég tek enga pólitíska afstöðu til lánaforma. Það getur vel verið að menn vilji byggja sér hús með því að taka hlaupareikningslán, sem eru á alverstu kjörum sem til eru. Kannski er erfitt að heimfæra það upp á húsið, en það er hægt að gera það með tryggingabréfi ef hægt er að sýna fram á að andvirði hlaupareikningsyfirdráttar sé notað til kaupa á fasteign. En hvað um það? Það skiptir ekki máli. Ég hef aldrei tekið pólitíska afstöðu, þetta er aðferð við hlutlæga mælingu á þeim þáttum sem vextir fela í sér. Vextir samanstanda af nokkrum þáttum, t.d. af raunvöxtum, af áhættu vegna verðbólgu, af tapáhættu og nokkrum öðrum smærri þáttum. Þessir þrír þættir skipta mestu máli. Þar er tapáhættan sem betur fer minnst vegna þess að gert er ráð fyrir því í öllum lánaviðskiptum að lántakandi fari í greiðslumat.

Lög um vexti og verðtryggingu eins og þau eru orðin núna eru hreinn óskapnaður. Þau eiga fyrst og fremst að taka á nokkrum grundvallarþáttum en það að einhver megi ekki taka gengistryggt lán vegna þess að hann eigi ekki erlendar eignir, það kemur okkur bara ekkert við. Ef viðkomandi vill taka gengistryggt lán og hefur meiri trú á lánaviðskiptum í erlendri mynt, þá er það bara fínt, ég ætla ekki að banna honum það.

Það sem ég er að óska eftir hér er jafnræði. Það er það eina sem ég óska eftir. Ég óska eftir því að lántakendur sem ákveða að kaupa sína fyrstu eign njóti jafnræðis sama hvaða upplýstu ákvörðun þeir taka. Það að tala hér um eðlisbreytingu á máli, það kann að vera að mér hafi orðið á mistök í gerð þessarar breytingartillögu. Í fljótræði í þarsíðustu viku yfirsást mér að á tveimur stöðum í 2. gr. þessa frumvarps stendur „óverðtryggt lán“. Það kann að vera að sú réttaróvissa sem vísað er til stafi af því að ekki hafi farið fram nægilegur yfirlestur á þessu. Þeim sem aðstoðuðu mig og mér, okkur bara yfirsást þetta. Þá er ekkert annað að gera en að greiða úr því þannig að fólk geti tekið þau lán sem hafa á undanförnum 25 árum verið hálfu til heilu prósenti hagstæðari en svokölluð óverðtryggð lán, sem eru ekki óverðtryggð. Það er nú vandamálið í skilningi fólks. Það er verið að blekkja fólk hér með rangri nafngift á lánsformi; og ívilna því frekar fram yfir þá sem taka svokallað verðtryggt lán sem er mælt, eins og ég hef margoft sagt, með hlutlægri mælingu. Um þá hlutlægu mælingu geta menn ekki tekið pólitíska afstöðu.

Ég hef heyrt menn tala hér um það hvaða málband eigi að nota. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson sagði hér á opnum fundi í efnahags- og viðskiptanefnd að hann neytti ekki húsnæðis, hann borðaði það ekki. Sko. Neysluverðsvísitala, sem er notuð til mælinga, mælir í raun þá fórn sem viðkomandi þarf til að lifa. Þetta er gert eftir ákveðnu mati þar sem fólk skráir sín matarkaup og aðra neyslu og síðan er húsnæðisliðurinn reiknaður eftir ákveðnum reglum sem Hagstofa Evrópusambandsins er alltaf að reyna að nálgast, en fram kom dásemd nokkurra framsóknarmanna á Evrópusambandinu þar sem þeir mæla Hagstofu Evrópusambandsins sérstaklega bót.

Ég óska eftir því að horft verði til þess að þetta frumvarp, eins og það stendur núna, verði lagað og greidd atkvæði um það. En ég bara bið um að menn séu ekki að lýsa því yfir að til sé pólitísk afstaða til lánaforma. Það er undarleg pólitík. Ég hef aldrei skilið þá pólitík.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri og læt bara skynsemi þingmanna ráða hér eftir. Takk fyrir.