145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:35]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að sitja þegjandi hjá við þá umræðu sem hér fer fram. Ég vil byrja á að segja að ég styð ekki það frumvarp sem hér er til atkvæðagreiðslu, um stuðning við kaup á fyrstu fasteign. Ég tel að það nái ekki þeim tilgangi sem ég tel eiga að vera til staðar, þ.e. að ef við ætlum að styðja ungt fólk til kaupa á fyrstu íbúð eigi allir að sitja við sama borð, í þeim mæli sem mögulegt er. Í frumvarpinu ræðst skattafsláttur sem fólk getur fengið til kaupa á fyrstu íbúð af þeim tekjum sem fólk hefur. Þeir sem hafa hærri tekjur geta þannig fengið meiri afslátt og þar með meiri ríkisstyrk, ef svo má segja, en hinir. Það er meginástæðan fyrir því að ég er beinlínis á móti frumvarpinu eins og það kemur fram. Ég tel að það sé á sömu nótum og aðrar aðgerðir þessarar ríkisstjórnar þegar kemur að því að veita afslátt eða nota fé ríkisins. Það er gert á þann hátt að það gagnast betur þeim sem betra hafa það en hinum. Það er meginástæða þess að ég styð ekki þetta mál.

Á hinn bóginn er þetta mál lagt fram ásamt breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu; ég held að það mál hafi verið nr. 817, en þetta mál er nr. 818. Þar er beinlínis verið að banna fólki, ef það er orðið 35 ára, að taka 40 ára lán því að þegar fólk er orðið 35 ára hefur það víst ekki vit á því hvort það vilji skulda lengur en þar til það verður 65 ára. Ég fór ítarlega yfir það frumvarp í ræðu og ætla ekki að endurtaka hana hér. En það var pólitískt loforð Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar að afnema verðtryggingu vegna þess að til er fólk sem heldur að verðtrygging sé sérstakt pólitískt mál en ekki mælieining á það hvernig verðlag breytist í landinu.

Það er síðan komið inn í þetta frumvarp að menn ætla að styrkja fólk til að kaupa fyrstu íbúð og styrkja þá meira sem hafa hærri laun vegna þess að þeir geta sparað meira. Þá á líka að beina þeim inn í það sem Framsóknarflokkurinn segir að sé vont mál og það eru óverðtryggð lán. En það hefur sýnt sig að til langs tíma eru óverðtryggð lán, og það kemur fram í nefndaráliti mínu með máli nr. 817, óhagstæðari. Þau bera hærri vexti en verðtryggð lán. Það er það sem sagan sýnir. Ég vil líka vitna í það sem hv. þm. Árni Páll Árnason benti á hér áðan: Sú skoðun að óverðtryggð lán væru hagstæðari en verðtryggð hefur verið ofan á en undanfarið, þegar fólk fer að skoða þetta nánar, hefur fólk vaknað upp við það að nú taka miklu fleiri verðtryggð lán en óverðtryggð. Þrátt fyrir alla þá umræðu sem hefur verið. Það er nefnilega hárrétt sem hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason segir: Verðtrygging er ekki pólitískt mál. Verðtrygging er málband. Ef menn vilja hafa einhverja skoðun á málbandi eftir því í hvaða flokki þeir eru þá gera þeir það í þessu máli. En þetta sýnir fáránleika þessa máls frá A til Ö.

Ég vil ítreka að ástæðan fyrir því að ég er á móti þessu máli er sú að þar er gert ráð fyrir að þeir sem hafa það betra geti fengið meiri stuðning frá ríkinu en þeir sem hafa það ekki eins gott.