145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:40]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég sé mig knúinn til að blanda mér inn í þessa umræðu til að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa álitamáls sem hér er komið upp og reyna að útskýra hvernig ég skil þetta allt saman. Mér finnst þetta orðið svolítið óskýrt og þurfti að rýna aftur í þennan lagatexta eins og hann liggur fyrir til að átta mig á hvað er í gangi.

Fyrst vil ég ítreka að við í Bjartri framtíð erum með hundshaus gagnvart þessu máli sem við höfum látið í ljós með því að vera á gula takkanum. Við getum ekki stutt þetta. Við teljum að frumvarpið nái ekki yfirlýstum markmiðum sínum um að styðja fólk sem raunverulega þarf aðstoð til að kaupa sína fyrstu íbúð. Við teljum að þetta frumvarp sé marklaust. Sú afstaða hefur ekkert breyst. En hér er ákveðið álitamál.

Ég er í grundvallaratriðum sammála málflutningi hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar, það er fáránlegt að ætla að hafa vit fyrir lántakendum þegar kemur að verðtryggðum eða óverðtryggðum lánum. Þetta eru að mörgu leyti tvær hliðar á sama peningnum. Við verðum að horfast í augu við það að eins og stjórn efnahagsmála hefur verið á Íslandi á undanförnum áratugum, og kannski er svolítið langt í land að við komumst í ásigkomulag varanlegs stöðugleika þótt það sé vissulega keppikefli nr. eitt, tvö og þrjú, hafa verðtryggð lán að mörgu leyti verið til hagsbóta fyrir lántakendur og tryggt þá gegn verðsveiflum. Ef við komumst einhvern tíma á stig varanlegs stöðugleika er verðtryggingin náttúrlega úr sögunni. Óvinurinn hérna er óstöðugleiki.

Ég er á því að við eigum ekkert að fara út í lagasetningar þar sem við reynum að hafa vit fyrir fólki í þessu árferði hvað það varðar hvort það eigi að taka óverðtryggð eða verðtryggð lán. Ég er algerlega á móti hinu frumvarpinu, sem mælt var fyrir á sama tíma og þessu, um að takmarka rétt ákveðins hóps fólks til að taka verðtryggð lán til 40 ára. Mér finnst það frumvarp alveg út í hött.

Ég tel það hins vegar veigamikinn galla á breytingartillögu hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar, sem var samþykkt hér í gær, að hún varðar einungis 3. gr. Það er þar sem óverðtryggð lán er tekið út; hins vegar er allt umhverfi 3. gr. skilgreint í 2. gr. og þar er sérstaklega fjallað um óverðtryggð lán. Það þyrfti því að breyta 3. gr. svolítið mikið ef menn vilja taka út þennan greinarmun á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum. Síðan finnst mér mikilvægt að árétta, ég veit ekki hvort það er misskilningur í umræðunni eða misskilningur hjá mér, að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að fólk megi ekki ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaðinum inn á verðtryggt lán. Í 2. gr. b er sagt að ráðstafa megi iðgjaldi inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í fyrstu í búð. Það gildir auðvitað líka um verðtryggð lán. Það er því ekkert verið að útiloka verðtryggð lán í frumvarpinu. Mér finnst það rangt sem er sagt hér í umræðunni, ég held að ég hafi heyrt rétt, að verið sé að girða fyrir það að fólk sem ákveður að taka verðtryggð lán geti notið þessa úrræðis. Það er ekki rétt.

Það er heimild til að greiða inn á höfuðstól verðtryggðs láns og óverðtryggðs láns í frumvarpinu; svo er sérstök heimild til að greiða niður afborganir á óverðtryggðu láni. Það er byggt á þeirri röksemd að afborganir á óverðtryggðum lánum eru yfirleitt hærri en af verðtryggðu láni. Ég er út af fyrir sig alveg sammála því. En mér finnst svolítið skrýtið að vera að færa bönkunum ákveðinn ríkisstyrk með því að ríkið fari að greiða niður afborganir á dýrara lánsforminu. Ég mundi halda að allt þetta ætti að fara út, með þeim fyrirvara að ég styð ekki þetta frumvarp, en þá væri langhreinlegast að hafa þetta einfaldlega þannig að verja megi uppsöfnuðu iðgjaldi til kaupa á fyrstu íbúð og/eða ráðstafa iðgjaldi inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð. Punktur. Það á ekkert að vera að bjóða upp á að greiða afborganir sérstaklega af óverðtryggðum lánum til að reyna, á mjög óljósum pólitískum forsendum, að beina fólki í lánsform sem að mörgu leyti er dýrara.

Hins vegar þarf yfirgripsmeiri breytingartillögur við frumvarpið en hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason lagði fram til þess að það verði eins og ég hef lýst. Ég vildi bara taka fram að mér finnst misskilningur að segja að úrræðið nýtist ekki þeim sem taka verðtryggð lán. Það gerir það. Og svo þetta grundvallaratriði að mér finnst ekki skynsamlegt að greiða sérstaklega niður afborganir á óverðtryggðum lánum og gera þannig greinarmun á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum.

Ég veit ekki hvort ég hef eitthvað skýrt þetta mál en ég fann þörf hjá mér til að lýsa því, alla vega reyna að gera tilraun til þess, hvernig ég skil þetta. Eftir sem áður er afstaða mín og Bjartrar framtíðar óbreytt. Við viljum sem minnst af þessu frumvarpi vita og ætlum ekkert að blanda okkur meira inn í þessa áhugaverðu deilu milli þingmanna stjórnarflokkanna um óverðtryggð og verðtryggð lán. Við teljum frumvarpið í grundvallaratriðum algerlega marklaust.