145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta mál leysir engan vanda en heldur áfram þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að færa fé til þeirra sem síst þurfa á því að halda á húsnæðismarkaði eins og allar aðgerðir hennar á húsnæðismarkaði þetta kjörtímabil. Ef menn vilja styðja við fyrstu íbúðar kaupendur blasir við að nýta vaxtabótakerfið sem hentar langbest til að koma stuðningi til þeirra sem þurfa nauðsynlega á honum að halda. Það er auðvitað grátbroslegt að hér standi til að staðfesta að veita þeim sem eru með 1.400 þús. kr. í mánaðarlaun sérstakan ríkisstyrk til þess að bjóða hærra í íbúðir sem þeir nú þegar geta keypt.

Það er svo til að toppa allt saman að hér reynir stjórnarmeirihlutinn að vinda ofan af þeirri skynsamlegu breytingu sem samþykkt var í gær að undirlagi hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar að vera ekki að mismuna fólki þegar það fær þennan opinbera stuðning eftir því hvaða lánsform það velur sér. Nei, nei. Hér ætla ofstjórnarflokkarnir að halda áfram og koma málum þannig fyrir að þeir sem kjósa að taka (Forseti hringir.) verðtryggð lán, sem er mikill meiri hluti kaupenda í dag, fái ekki opinberan stuðning en hins vegar (Forseti hringir.) fái þeir sem eru tilbúnir að ofurselja sig valdi bankanna og taka óverðtryggð lán opinberan stuðning til að borga bönkunum enn hærri vexti.