145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:57]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér er um afar jákvætt frumvarp að ræða um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, sem ég styð heils hugar. Fólk er stutt til sparnaðar og kaupa á fyrstu íbúð. Frumvarpið leysir auðvitað ekki allan vanda, eins og þann skort á framboði sem er á húsnæðismarkaði, en hér er sannarlega um mjög jákvæðan stuðning að ræða. Ég vil í ljósi umræðunnar um að mismunað sé eftir lánaformum benda á b-lið 2. gr. Þar stendur skýrum stöfum að hægt sé að ráðstafa iðgjaldi inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð. Það stendur þarna. Við greiðum jafnframt atkvæði á eftir um breytingartillögu sem er óhjákvæmilegt að fara í og vinda ofan af breytingartillögu 2. meiri hluta sem við samþykktum í gær, vegna þess að það skortir mat á áhrifum af þeirri tillögu og eðlisbreytir hún markmiðum frumvarpsins.