145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:58]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er merkilegt að sitja hér og hlusta á stjórnarandstöðuna tala um að allt sem þessi ríkisstjórn hafi gert í húsnæðismálum sé af hinu vonda. Fjögur frumvörp voru afgreidd á vorþingi, um almennar íbúðir, húsaleigubætur og fleiri frumvörp frá hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, í góðri sátt út úr velferðarnefnd. Að tala eins og ekkert hafi verið gert fyrir fólk á húsnæðis- og leigumarkaði er náttúrlega, virðulegur forseti, ég leyfi mér að nota orðið, tómt bull. Þeir þingmenn sem þannig tala hafa bara ekki verið í þingsal og fylgst með. (Gripið fram í.) Þessu frumvarpi hins vegar er ætlað að gefa fólki sem nýtir séreignarsparnað sinn tækifæri til að greiða, til að spara í fyrsta lagi, til þess að eiga fyrir fyrstu útborgun; í öðru lagi til þess að geta greitt inn á annað tveggja, verðtryggt eða óverðtryggt lán. Það er því ekki verið að mismuna einstaklingum eftir því hvort þeir taka verðtryggð eða óverðtryggð lán. Það er skýrt og skorinort í frumvarpinu. (Forseti hringir.) Þetta er framfaraskref, skref sem gefur ungu fólki tækifæri til að spara og borga inn á sína fyrstu íbúð. Ég fagna framkomu þess.