145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

útlendingar.

893. mál
[13:05]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég vil bara vekja athygli á því að hér er bráðabirgðaákvæði um lið í lögum um útlendinga sem við píratar höfum varað við. Það er skilgreiningin á öruggum löndum. Það var t.d. þannig að það mætti senda útlendinga til öruggra landa þar sem eru dauðarefsingar og mundi það seint vera skilgreint sem öryggi ef þú ert sendur til baka og óttast um líf þitt. Ég held að við þurfum að stíga mjög varlega til jarðar þegar við notum slíkar skilgreiningar í heimi þar sem eru miklar breytingar og sviptingar. Ég vonast til þess að ekki verði gripið til svona bráðabirgðaákvæða þar sem þú hefur ekki rétt til að kæra úrskurð. Ef við fáum inn hópa af flóttamönnum eða hælisleitendum þurfum við að fara mjög varlega. (Forseti hringir.) Ég tel að það þurfi að vera miklu meiri umræða um svona mál hér á þingi en er um þetta tiltekna mál.