145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

útlendingar.

893. mál
[13:08]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil bara taka það fram að við erum ekki að gera breytingar á því ákvæði er fjallar um örugg ríki. Þetta ákvæði gildir einungis til áramóta þegar nýju útlendingalögin taka gildi. Hér er verið að stíga eins lítið skref og í rauninni er hægt. Engu að síður er það mjög mikilvægt og ég þakka fyrir þann skilning sem málið fær hér í þinginu. Við fjölluðum að sjálfsögðu um efnisatriði ákvæðis á þessa lund þegar við fórum með hinn svokallaða útlendingastubb í gegnum þingið fyrr á þessu þingi, í marsmánuði minnir mig þannig að rökin með og á móti hafa verið rædd í allsherjarnefnd og við höfum fengið gesti vegna þess þó að við höfum ekki náð að taka slíka fundi í nefndinni núna í þessum mánuði.