145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[14:31]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þótt ég sé ekki ósammála markmiði þessa frumvarps þá stoppaði ég við aukauppbótina sem einstaklingar fá sem búa einir. Mér finnst það svolítið sérstakt að borga fólki uppbót ef maki þeirra er fallinn frá, við erum að tala um gamalt fólk eða ellilífeyrisþega. Ég skil vel að það sé dýrara að vera einn, að halda heimili einn en ekki með öðrum, en af hverju er ekki bara ein flöt hækkun fyrir alla, af hverju er verið að hækka þennan eina bótaflokk umfram aðra og þá ekki jafnt? Hver eru jafnaðarsjónarmiðin þegar kemur að því? Hver eru eiginlega rökin á bak við það? Mig langar að heyra það frá hv. þingmanni og fá að fræðast aðeins meira um það.